Færsluflokkur: Bloggar
24.5.2008 | 09:27
Enn af þrumum og eldingum.
Fyrir fjöritíu árum drundu þrumur og eldingar í Svarfaðardal og nágrenni. Jörð skókst og titraði. Undur og stórmerki fylgdu í kjölfarið. Lítill drengur fæddist, bjartur og fagur. Var gefið nafnið Atli Örn. Til hamingju elsku Atli með afmælið. Ekki þarf að tíunda þetta með "allt er fertugum fært" þar sem þér hafa alla tíð verið allir vegir færir. Afmæliskveðjur frá okkur og Helga systir biður að heilsa.
Þá verður fjallað um Evróvisjón. Dalvískur kappinn, Friðrik Ómar Hjörleifsson ætlar sér mikinn á serbneska sviðinu í kvöld. Við vissum þetta alveg þegar hann sat við píanóið heima í Öldugötunni að hann ætti eftir að koma fram fyrir millljónir manna. Þetta er hans kvöld í kvöld og hann á eflaust eftir að njóta þess. Malt og appelsín verður á boðstólum á Zenia Golf í kvöld. Baráttukveðjur.
Allar góðar vættir veri með ykkur í kvöld og um framtíð alla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2008 | 21:10
Þrumur og eldingar.
Þá er "kussungur" og spúsa hans farin til Íslands. Það verð ég að viðurkenna að ég sakna bróður og vinu hans. Það var mikið fjör og mikið gaman að hafa þau, en ekki dugar að gráta Björn bónda heldur safna liði. Maður kemur í manns stað stendur einhversstaðar.
(Og alltaf má fá annað skip og annað föruneyti). En fleiri grétu en við. Himnarnir grétu eftir að þau yfirgáfu landið. Þrumur og eldingar drundu hér yfir með hvílíkum hávaða og látum og steypiregn helltist yfir þannig að maður varð harla smár og allur máttur úr manni dreginn. Hvílíkur kraftur og hvílíkur hávaði. Minna mátti það alveg vera, en fjarska gott að fá regnvatnið á þessar slóðir.
Og viti menn eftir að birti upp, birtust hér á hlaðinu doctor Þóroddur, (kussungur)kandídat Aðalheiður,(má ekki titla sig doktor fyrr en að ári) litla stýrið hún Ester Helga skapmikil og skemmtileg táta,(kussungur)síðastur og ekki sístur Ingvar prófessor með meiru(kussungur) Fjölskyldan ætlar að búa í íbúð þeirra Bjössa og Lilju næstu tvær vikur. Munum við eitthvað fá að njóta samvista við þau þessa daga. Þá er það bara spurningin hver "tanast" mest næstu daga?
Auðvitað var farið á ströndina í morgun og skemmtu krakkarnir sér hið besta í sjó og sandi. Voru hvergi smeyk, enda vel varin í bak og fyrir. Allý prófaði nuddið og líkaði vel. Tanið mökkaðist á Dodda, hann virðist ætla að verða sigurstranglegur.
Verið öll góðum vættum falin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2008 | 19:35
Innrás Kussunga!
Kussungurinn og listamaðurinn Hafsteinn Reykjalín og Inga Har fagurkeri og listaspíra réðust til inngöngu á Spán seint í gærkveldi. Það má segja að innrásin hafi verið gerð í skjóli myrkurs. Við vorum mætt á flugvöllinn til að fagna bróður og spúsu hans. Þau eru hress og glöð að vanda fegin að komast frá kuldanum á Fróni. Einhverjir munu verða komu þeirra varir næstu dag, því ekki verður bara legið með nefið uppí loft alla daga, heldur tekin út helstu mið til lands og sjávar.
Ræst var og fólk rifið upp fyrir allar aldir í morgun og stefnan tekin á sítrónu-markaðinn. Þar sátum við eða röltum um og nutum veðurblíðunnar og mannfjöldans. Það getur verið svo gaman að sitja bara með kaffibollann sinn og horfa á fólk af öllum tegundum og gerðum.
Fyrir þá sem ekki vita hvað listasmiðirnir Inga og Hafsteinn eru að bardúsa við geta farið á heimasíður þeirra og séð afraksturinn.
Allar góðar vættir veri með ykkur alla daga og nætur.
Bloggar | Breytt 29.4.2008 kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.4.2008 | 09:23
Til hamingju Dalvíkurbyggð!
Mikið vorum við hjónin stolt og glöð þegar við fréttum að Eyþór Ingi hefði sigrað keppnina hjá Bubba. Ég geri ráð fyrir að allir Dalvíkingar og Ströndungar séu að rifna úr monti þessa dagana. Við viljum óska Eyþóri og fjölskyldu hans til hamingju og megi framtíðin brosa við ykkur. Drengurinn er ekki bara hæfileikaríkur og fallegur,heldur er hann gull af manni og hvers manns hugljúfi. Til hamingju Dalvíkurbyggð.
Þá er bara að bíða og sjá hvernig Friðrik Ómar okkar og félagar pluma sig í Serbíu. Við vitum að þar eru á ferð hæfileikaríkir og flottir listamenn. Ég veit að Friðrik Ómar hefur verið að rækta sál og líkama undanfarnar vikur og er vel á sig kominn í alla staði. Koma svo.....Dalvíkurbyggð má vera stolt af sínum mönnum.
Ég bið allar góðar vættir að vernda ykkur alla daga og nætur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.4.2008 | 18:47
Slegið á létta strengi.
Á sunnudaginn fórum við á Sítrónumarkaðinn. Eftir að hafa vafrað þar um í nokkurn tíma fundum við frænkurnar gítar sem við gripum aðeins í og tókum lagið fyrir viðstadda. Við vorum smástund að finna rétta tóninn en svo hljómaði Oh Carol undurblítt og fagurt. Ekki var laust við að blikaði á stolt í augum eiginmannanna. Í fyrstu fannst okkur líka eins og fólkið væri yfir sig hrifið. En fljótlega fór að fækka í kringum okkur og afgreiðslumaðurinn í básnum bað okkur að pilla okkur áður enn allir viðskiptavinir hyrfu á braut. Þeir kunna ekki að meta góðan tvísöng þessir spanjólar.
Við heimsóttum Bjössa Kristjáns og Sísí konu hans. (Bjössi er bróðir Júlla Stjána). Þau eiga hús í La Marína sem er ekki langt héðan. Tuttugu mínútna keyrsla eða svo. Ella og Daddi leigðu bíl og mig sem einkabílstjóra,svo hægt var um vik og ekki var um annað að ræða en að keyra þangað þegar við fréttum að Ragnheiður og Júlli væru hér í nágrenninu.
Það duttu af mér allar dauðar lýs, ég trúði þessu tæpast. Jú viti menn þarna voru þau komin í eigin persónum í flotta húsið þeirra Bjössa og Sísíar. Það urðu að vonum fagnaðarfundir og sátum við í góðu yfirlæti hjá þeim dagpart.Þau eru síðan búin að sækja okkur heim á Zenia Golf.
Það var frábært að fá þau í heimsókn. Það er pínu tómlegt eftir að hjónin í Lundi fóru heim til Íslands.
Meðan á dvöl þeirra Lundshjóna stóð má segja að þeim hafi ekki fallið verk úr hendi eins og sjá má á myndinni, sem tekin er við hliðið í Lundi. Ef ekki var verið að þrífa, elda eða ditta að, var prjónað og gyllt. Daddi var ansi drjúgur og harla glaður með gylltu málinguna.
Þau gáfu sér þó tíma til að skreppa til Orihuela. Þar borðuðum við saman síðustu miðdagsmáltíðina. Herramannsmat sem samanstóð m.a. af hrísgrjónum,slátri, lifrapylsu og ýmsu öðru sem ég veit ekki hvað var. Við skemmtum okkur konunglega yfir þessari máltíð en munum örugglega ekki borða á þessum veitingarstað aftur.
Við frænkur þurftum að fleygja okkur aðeins eftir matinn. Vorum ekki í vandræðum með að finna flotta verslun sem seldi rúm. Við gerðum okkur líklegar til að versla og fengum auðvitað að prófa hvert rúmið á eftir öðru.
Ég bið allar góðar vættir að vernda ykkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2008 | 20:26
Frænkur á ferð.
Ella og Daddi hafa verið hér í viku. Þau eru að rygga til í Lundi, þrífa og hreiðra um sig. Ýmislegt hefur þurft að draga í búið og auðvitað var arkað á markaðinn sl. laugardag og má sjá á myndinni að keypt var sitt lítið af hverju.
Þau hafa nú komið sér ágætlega fyrir og er orðið býsna heimilislegt hjá þeim Lundsbúum. Það er afar góð tilfinning að við frænkurnar skulum vera komnar í slíkt nábýli á erlendri grund. Við ólumst upp í miklu nábýli á Dalvíkinni draumabláu. Ef eitthvað er er enn styttra á milli Reykholts og Lunds hér í Zenia Golf en er í Karlsbrautinni.
Við vorum boðin í fyrstu kvöldmáltíðina og er ekki að spyrja að þar voru dýrindisveitingar á borðum og voru allir saddir og sælir þegar upp var staðið.
Við frænkurnar og vinkonurnar njótum samvistanna og dettum annað slagið í gamla barna-gírinn (minnugar þess að tvisvar verður gamall maður barn) þegar við rifjum upp gömul minningabrot, eða upplifum eitthvað skemmtilegt og framandi. Við hlægjum okkur í raun máttlausar af litlu tilefni og karlar okkar kíma í kampinn.
Ég bið allar góðar vættir að vera með ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.4.2008 | 20:51
Ferming á Spáni
Við fórum til fermingarmessu í Norsku Sjómannakirkjunni í Torrevieja á sunnudaginn. Prestur var séra Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, en hún er sóknarprestur á Hellissandi. Hún kemur hingað nokkrum sinnum á ári og messar í Sjómannakirkjunni. Tvö íslensk ungmenni endurnýjuðu skírnaheit sín. Annað þeirra var Kristinn Ómar Brynjólfsson en við vorum boðin í veislu til hans. Athöfnin var látlaus og falleg. Prestinum talaðist vel til. Norskur organisti spilaði sálmana. Enginn kirkjukór. Kirkjugestir sungu sálmana með sínum nefum og átakanlega mjóum rómum. Presturinn var mjög ánægður (ekki með sönginn) með kirkjusóknina. Hátt í hundrað manns mættu til messunnar. Kirkjugestir gengu flestir til altaris og þáðu brauð og vín úr hendi prestsins. Enginn var meðhjálparinn. Enginn Sigurvin og engin Þura Stína við þessa athöfn.
Eftir athöfnina fórum við í fermingarveislu á Filton Saloon, sem er bar í bandarískum stíl. Vinalegur og aðlaðandi staður. Veitingar voru glæsilegar og góðar. Til helminga íslenskt og spænskt. Íslensku brauðterturnar slógu í gegn hjá mörgum en spænsku beikondöðlurnar slógu allt út fannst mér,hmmm þær voru æðislegar. Það var mjög gaman að fá að kynnast þessu hér. Auðvitað var þetta allt keimlíkt og heima, utan eitt. Þegar í veislusalinn var komið var boðið uppá vín og bjór. Ég veit ekki hvað mér finnst um það. Mér fannst það ekkert tiltökumál á meðan á veislunni stóð, enda fékk ég mitt vatn og kaffi eins og ég í mig gat látið. Ég ætla ekki að taka dýpra í með árinni en svo: að ég vona að íslendingar taki ekki uppá þeirri ósvinnu að bjóða áfenga drykki í fermingarveislum barna sinna.
Ekkert fleira að sinni, verið öll góðum vættum falin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.3.2008 | 19:47
Konfekt og Crocs.
"Konfektið búið og ekkert eftir nema grjótharður brjóstsykurinn" Segir Bjössi vinur minn stundum þegar þannig er gállinn á honum. Andrea er farin svo Ninni situr uppi með Agga djö.. einan enn og aftur. (orðinn vanur) Búið er að skila af sér bílnum svo nú er bara að notast við tvo jafnfljóta. Þá er líka gott að vera vel skóaður og það erum við hjúin svo sannarlega. Crocs-skórnir frá Ameríkunni hafa sannarlega reynst vel. Hrafnhildur mín var búin að spá því að þegar við loks byrjuðum að nota þetta skótau myndum við ekki líta við öðrum skóm eftir það. Mikið rétt við höfum enn ekki sofið í þeim, en notum þá daglega og mikið eru þeir ótrúlega fótavænir. Þeir eru kannski ekki alveg nógu smart þegar fraukan er kominn í kjól og hvítt, en hvern varðar um það þó skórnir tóni ekki alveg við kjólinn. En mikið assko...er maður fljótur að gera sig háðan bíldruslum, jafnvel þó þær komist ekki yfir hundraðið.
Ég bið allar góðar vættir að vera með ykkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2008 | 11:30
Hraðbrautin





Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.3.2008 | 11:12
Afmæli
Ninni minn á afmæli í dag. Hann er 65 ára og sprækur sem lækur. Honum er nú ekkert mikið um það gefið að ég sé að skrifa um hann persónulega á þessa síðu enda hef ég ekkert verið að því. Við Andrea ætlum að baka afmælisköku í dag og bjóða honum út að borða í kvöld.
Ég hef verið svolítið hrædd um Andreu vegna spænsku strákanna. Hún fær hvílíku athyglina. Strákarnir góna, blístra og sumir hreinlega slefa á eftir henni. Sumir dirfast að koma með athugsemdir: "how are you beauty?" "Where are you from blonde?, you are so beautyful" Sama gildir eiginlega um Ninna en það eru ekki strákar, heldur kerlingar á miðjum aldri og jafnvel yngri, sem gapa og góna á hann og blikka hann.( Hafa enn ekki þorað að koma með athugasemdir,þar sem ég set bara upp Miðkots-hrokasvip og þær hrökklast úr vegi.) Ég geri mér allavega grein fyrir að ég þarf að vera beggja megin á flakki og halda í mitt fólk.
Björn og Gyða (Belgur og Biða
) eiga líka afmæli í dag. Ég var svo lánsöm að vera við fæðingu tvíburanna fyrir fjórtán árum. Það var ótrúleg upplifun sem ég reyni ekki að lýsa í þetta sinn. En þau eru yndisleg bæði tvö og eiga bjarta framtíð fyrir sér. Því miður á ég ekki mynd í þessari tölvu. Til hamingju afmælisbörn og megi allar góðar vættir vernda ykkur og blessa um alla framtíð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)