Lykla-Pétur.

 Verkaskipting hér í kotinu heLykla-Péturfur smátt og smátt verið að þróast. Í ýmsu er að snúast og margt að gera þó kotið sé lítið og kaupið lágt. Ninni sér t.d. alfarið um kyndinguna, sem er annað hvort rafmagns- eða gasknúin. Þá hafa mál þróast þannig að hann hefur sjálfskipað sig sem lyklavörð. Allir lyklar eru í hans umsjón og ber hann alfarið ábyrgð á þeim. Sama hvort um er að ræða húslykla, bíllykla eða bara lykla. Hann gengur ansi langt í þessari vörslu lyklanna. Þegar ég er bílstjórinn og við komin á áfangastað á hann það til að vera á undan mér að slökkva á bílnum og vitaskuld tekur hann lyklanna og fær mér þá ekki fyrr en við leggjum í hann aftur. Hann segir sjálfur að hann viti ekki hvaða helvítis árátta þetta sé. Mér finnst þetta bara þægilegt að vita lyklana í öruggum höndum ekki síst hér þar sem allt þarf að vera lokað og læst,  svo þjófar og ribbaldar hafi ekki greiðan aðgang að manni. Þeir finnast hér eins og á Íslandi.

    Við sátum einn daginn í góðu yfirlæti hér út á verönd og nutum drykkja og meðlætis. Hjá okkur voru stödd Helga, Jói, Maggi, Bjössi og Lilja. Eitthvað var minn maður að brasa við gasið vegna arins í stofu, hann vildi kveikja í arninum svo yrði vel hlýtt og notalegt þegar við kæmum inn. Eftir að hafa spáð og spegúlerað með körlunum um gaskútinn logaði glatt í arninum og varð Ninni fjarska glaður og kom með bros á vör útá veröndina,en brosið breyttist fljótt í grettu: „ hvert þó í heitasta hel....hvern andskotann gerði ég?„ segir hann um leið og hann horfði inn um gluggann á arineldinn skíðloga. Hann lokaði sem sagt útidyrunum og lyklarnir voru inni.

    Þessi hurð læsist þegar hún fellur að stöfum.  Það er erfiðar fyrir okkur, lyklalaus, að komast inn um þessa læstu hurð, en var fyrir kerlinguna að koma Jóni sínum í gegn um Gullna-hliðið hjá Lykla-Pétri forðum.Nú reið á að vera snöggur að hugsa. Maggi vildi rétta fram hjálparhönd og var alveg viss um að með smámöndli kæmist hann inn með vísakortinu sínu. Ninni kærði sig ekkert um slíkt möndl en fékk síma lánaðan hjá Helgu, hringdi í vinkonu sína Gróu (ekki á Leiti) en hún og maður hennar voru til lánsins með aukalykil að kotinu okkar. Gróa sem stödd var í verslunarleiðangri brá skjótt við og kom eins og frelsandi engill og lauk dyrunum upp fyrir okkur. Það er annað en gaman að lokast svona úti. Við hefðum getað verið í djúpum skít, en Gróa sá um að svo var ekki. Næsta dag brá  Ninni undir sig betri fætinum og fór í járnvöruverslun hér rétt hjá. Hann lét smíða nokkur sett af lyklum. Síðustu daga hef ég séð hann grafa þessa lykla hér og þar um garðinn. Ekki veit ég hvar þetta endar, en eitt er víst að Lykla-Pétur er búinn að fyrirbyggja slíka uppákomu aftur.GetLost

Verið öll góðum vættum falin.Heart

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórgunnur R Vigfúsdóttir

bara dásamleg frásögn, morgunkaffið frussaðist yfir lyklaborðið

Þórgunnur R Vigfúsdóttir, 2.3.2008 kl. 11:19

2 identicon

Hahahaha, stórkostleg færsla í alla staði :D

Hulda Signý (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 14:19

3 Smámynd: Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir

Hahahahahahahaha... ég heyri alveg blótrununa í pabba þegar hurðin hefur skellst....hahahahaha. Þú ert alveg yndislegur sögumaður mamma mín

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir, 2.3.2008 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband