18.4.2008 | 18:47
Slegið á létta strengi.
Á sunnudaginn fórum við á Sítrónumarkaðinn. Eftir að hafa vafrað þar um í nokkurn tíma fundum við frænkurnar gítar sem við gripum aðeins í og tókum lagið fyrir viðstadda. Við vorum smástund að finna rétta tóninn en svo hljómaði Oh Carol undurblítt og fagurt. Ekki var laust við að blikaði á stolt í augum eiginmannanna. Í fyrstu fannst okkur líka eins og fólkið væri yfir sig hrifið. En fljótlega fór að fækka í kringum okkur og afgreiðslumaðurinn í básnum bað okkur að pilla okkur áður enn allir viðskiptavinir hyrfu á braut. Þeir kunna ekki að meta góðan tvísöng þessir spanjólar.
Við heimsóttum Bjössa Kristjáns og Sísí konu hans. (Bjössi er bróðir Júlla Stjána). Þau eiga hús í La Marína sem er ekki langt héðan. Tuttugu mínútna keyrsla eða svo. Ella og Daddi leigðu bíl og mig sem einkabílstjóra,svo hægt var um vik og ekki var um annað að ræða en að keyra þangað þegar við fréttum að Ragnheiður og Júlli væru hér í nágrenninu.
Það duttu af mér allar dauðar lýs, ég trúði þessu tæpast. Jú viti menn þarna voru þau komin í eigin persónum í flotta húsið þeirra Bjössa og Sísíar. Það urðu að vonum fagnaðarfundir og sátum við í góðu yfirlæti hjá þeim dagpart.Þau eru síðan búin að sækja okkur heim á Zenia Golf.
Það var frábært að fá þau í heimsókn. Það er pínu tómlegt eftir að hjónin í Lundi fóru heim til Íslands.
Meðan á dvöl þeirra Lundshjóna stóð má segja að þeim hafi ekki fallið verk úr hendi eins og sjá má á myndinni, sem tekin er við hliðið í Lundi. Ef ekki var verið að þrífa, elda eða ditta að, var prjónað og gyllt. Daddi var ansi drjúgur og harla glaður með gylltu málinguna.
Þau gáfu sér þó tíma til að skreppa til Orihuela. Þar borðuðum við saman síðustu miðdagsmáltíðina. Herramannsmat sem samanstóð m.a. af hrísgrjónum,slátri, lifrapylsu og ýmsu öðru sem ég veit ekki hvað var. Við skemmtum okkur konunglega yfir þessari máltíð en munum örugglega ekki borða á þessum veitingarstað aftur.
Við frænkur þurftum að fleygja okkur aðeins eftir matinn. Vorum ekki í vandræðum með að finna flotta verslun sem seldi rúm. Við gerðum okkur líklegar til að versla og fengum auðvitað að prófa hvert rúmið á eftir öðru.
Ég bið allar góðar vættir að vernda ykkur
Athugasemdir
Ykkur frænkum leiðist ekki og virðist alltaf verða svona 10 ára þegar þið komið saman. Og ekki efast ég um að stráklingarnir ferðist oft aftur til fortíðar þegar þið komið saman. Ég vildi hafa heyrt og séð Júlla í hitanum.
Þórgunnur (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 11:22
já mín kæra, ég fékk enn eitt hláturkastið þegar ég sá myndina af okkur í rúminu og ekki síður við tilhugsunina um kveðjuhófið eins og Bjössi kallaði máltína okkar í Orihuela
Ella (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.