17.11.2007 | 20:01
Trú.
Ég hef allnokkuð ígrundað trúmál í gegnum tíðina. Kristin trú hefur spilað þar aðalhlutverk. Ég er alin upp við hina hefðbundnu kristnu trú. Mér voru kenndar bænir og brýnt fyrir mér að breyta rétt í einu og öllu.Það var uppúr miðri síðustu öld sem mér var kennt Faðir vorið. Ég verð að viðurkenna að lengi framan að var skilningur minn á bæninni af skornum skammti, enda ekki nema fjögra til fimm ára gömul. Skuldunautarnir voru mér lengi erfiðir. Mér fannst að þessi naut hlytu að vera mjög sérstök, allt öðruvísi en nautið hans afa á Hóli. Svo voru vér og vorum nokkuð strembin og framandi. Ég minnist ekki langra útskýringa, maður átti bara að læra þetta og fara með bænina á hverju kvöldi þá myndi manni farnast vel. Láttu nú ljósið þitt var skítlétt miðað við Faðirvorið.
Þegar ég tala um hefðbundna kristna trú á ég við, að fólk almennt var ekki bókstafstrúar heldur trúði á ákveðna siðfræði sem Biblían boðaði, aðallega Nýja textamentið.Öll gömlu góðu uppeldisgildin eru í raun siðfræði úr Nýja textamentinu. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá hefur bænahald mitt staðið nær óslitið frá því að ég man eftir mér. Þó hafa komið nokkrir kaflar í lífi mínu þar sem ég hef ekki farið með bænirnar.Á þessum tímabilum hef ég verið í verulegri fýlu við guð minn og vægast sagt mjög ósátt við hann, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Ég hef verið og er enn þeirrar skoðunar að hver og einn þurfi að eiga sér einhverja trú. Ef engin trú er til staðar fer fljótt að halla undan og hinn trúlausi berst stefnulaust með straumnum sem rekald væri. Trúin getur verið af margvísum toga. Það þarf ekki endilega að trúa á einhvern Guð,einhverja ása, Búdda, Allah eða hvað þeir nú heita allir. Sumir trúa á stokka og steina, von og kærleika. Ennþá er til fólk sem trúir á Framsóknarflokkinn. Málið er að eiga bara trú. Trú á sjálfum sér. Æðruleysisbænin hjálpar þar. Í einu fýlukastinu við Guð fór ég að lesa Biblíuna. Ég hafði aldrei lesið Gamla textamentið og hef ekki enn klárað það. Ég hafði jú lesið Biblíusögurnar í grunnskóla og elskaði þessar fallegu sögur af Jesú og hjálpræði hans. Ást mín á því Gamla, er engin. Ég var eitthvað að velta þessum trúmálum fyrir mér í dag þar sem ég lá í makindum niður við sjó og horfði til himins. Guð skapaði heiminn Hann skapaði Adam. Evu ræfilinn skapaði Hann úr rifbeini Adams. Getur einhver sagt mér hvaðan tengdabörn Adams og Evu komu? Allrar góðar vættir veri með ykkur. Til hamingju með afmælið Allý!
P.s. Ég sá Garðar frá Ytra-holti í sjónvarpinu á dögunum. (Ekki óraði okkur SillaJúl,að Gæi ætti eftir að verða sjónvarpsstjarna) Fréttamaður spurði Gæa (sem fulltrúa veðurspárklúbbs Dalbæjar) hvort það yrðu hvít jól í ár?. Gæi setti sig í spámannsstellingu og lét líða hæfilega langa þögn þar til hann svaraði ja það gæti alveg orðið. Er þetta ekki alveg yndislegt?
Bloggar | Breytt 19.11.2007 kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.11.2007 | 12:06
Hún á afmæli í dag!


Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2007 | 20:25
Bubbi kóngur!
Ég hef komist að því að hvorki Bubbi Mortens né Davíð Oddsson geta með sanngirni kallað sig Bubba kóng. Davíð hefur kannski aldrei kallað sig Bubba kóng, hann var bara í hlutverki kóngsins á sviði í den En Bubbi Mortens hefur verið kallaður Bubbi kóngur og unað því vel. En hann er bara og verður Bubbi Mortens og ekki orð um það meir. Hér í nágrenni við okkur býr hinn eini sanni Bubbi kóngur. Máli mínu til sönnunar á ég mynd af kóngsa og drottingu hans.Myndin er tekin þegar Bubbi var að fara í sérlegt konungsteiti á dögunum. Hann og spúsa hans fóru að sjálfsögðu í sitt fínasta konuglega púss og tjölduðu öllu sem til var. Það má með sanni segja að kóngshjónin hafi verið í sjaldhafnarklæðum þetta kvöld og vakið aðdáun allra viðstaddra í teitinu. Bubbi tjáði mér daginn eftir að ekki hefði maturinn í veislunni verið af verri endanum, en fátt gleður Bubba meira en væn flís af feitum sauð og allur góður matur. Hrekkjavakan er haldin hátíðleg hér eins og víðast hvar nú orðið. Ég hafði nú ekki græna glóru um það. Svo ekki hafði ég undirbúið okkur neitt að eiga eitthvað gotterí í kotinu. Það hefur eiginlega verið bannvara síðustu vikurnar. Við fengum heimsókn og okkur boðið uppá hrekk eða gefa eitthvað gott. Ég Guðaði mig og Jesúsaði í bak og fyrir og kallaði á Ninna:(þar sem hinir svöruðu ekki) hvað eigum við að gefa krökkunum? Ég fékk ekkert svar en mundi allt í einu eftir orkustöngum sem ég hafði stolist til að kaupa. Ég sótti þær og tróð þeim í flýti í pokann hjá krökkunum og spurði svo hvort ég mætti ekki mynda þau. það var auðsótt mál og hér kemur afraksturinn. Allar góðar vættir veri yfir og allt um kring.
P.s. Mikið held ég að Gunnlaugur heitinn í Háa-skála hefði notið sín á hrekkjavökunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.11.2007 | 20:52
Amma og afi í Tógó.


Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.11.2007 | 23:19
Vín,andi og slátur.
Öllum íslendingum hérna á svæðinu var boðið í vínsmökkunarferð. Við sérfræðingarnir fórum auðvitað, þar sem um vínsmökkun var að ræða. Mæting í rútu var á golfvellinum sem er hér í grenndinni.(golfvöllur á heimsmælikvarða segja þeir sem til þekkja) Bjössi og Lilja fóru líka og fengum við far með þeim á golfvöllinn. Bjössi keyrir hér um eins og alvanur leigubílstjóri til 25 ára. Þegar á golfvöllinn var komið voru þar mættir um 50 þyrstir íslendingar. Ég fer strax að huga í kringum mig og undrast með sjálfri mér að þekkja ekki nokkurt kjaft af öllu þessu fólki. Jú bíddu við, þarna var einn frægur leikari sem ég þekkti. Ég get bara ekki með nokkru móti munað nafnið á honum. Hvernig sem ég pæli, kemur nafnið ekki upp í hugann. Ég vendi þá mínu kvæði í kross og fer að grufla í hvaða leikriti ég hafi séð hann síðast. Alveg sama ég get ekki munað það. Ég er náttúrlega ekkert ánægð með þetta minnisleysi mitt, en hugsa eitthvað á þessa leið:Ég tek hann bara tali og spyr hann í hvaða leikriti hann hafi verið að leika nýlega (eða kannski var það bíómynd) Þá átta ég mig örugglega hver hann er. Það verður svo gaman að guma að því heima að hafa hitt og spjallað við þennan fræga, myndarlega leikara. Ég hrekk uppúr hugrenningum mínum þegar einhver töffari tekur hann tali svo ég hætti við að vekja á mér athygli í þetta sinn, en gramdist mjög að muna ekki nafnið á honum, eins og ég er nú búin að sjá mörg leikrit sem hann hefur leikið í. Það kemur vonandi tækifæri seinna í ferðinni til að tala við hann. Seinna í ferðinni segir Ninni við mig: Þekkir þú ekki þennan í brúna jakkanum? og horfir um leið í átt til leikarans. Ég svara með hálfgerðu þjósti: Mannst Þúú hvað hann heitir þessi leikari? (það hafði ekki hvarflað að mér að hann myndi nafnið, eða bara þekkti manninn) Ninni svarar að bragði:hvaða leikara ert þú að tala um? þetta er Valdimar Grímsson handboltakappi. Mér leið eins og að ég hefði verið slegin utan undir með blautri tusku. En gat þó huggað mig við að þessi maður hafði leikið marga leiki þó ekki væri í leikritum.
Það er varla hægt að segja að ég hafi borið mitt barr það sem eftir lifði ferðar. Jú ,jú ég var fljót að taka gleði mína á ný. Þetta var stór skemmti-og merkileg ferð. Það var byggingarfyrirtækið Grupo Invercon sem bauð til fararinnar. Eigandi þess og vínekrunnar er einn ríkasti maður Spánar,Paco Gomes.
Þetta var fyrsta kynningarferðin hjá honum og auðvitað sölu og markaðskynning. Þeir vita hverjir eru ginkeyptastir þegar ölið er annars vegar. Okkur bauðst sem sé að kaupa aðild að öllu góssinu. Aðgang að ekrunni og vínkjallaranum sem er, með öllu þrjú þúsund fermetrar. En þar verður m.a. vínsmökkunarskóli,(ekki eins og var á Húsabakka um árið) vínsafn,listamannasetur, veitingarstaður,ólívuframleiðsla og síðast en ekki síst kirkja. Allt verður þetta byggt í upprunalega spænska stílnum. Okkur stóð til boða og stendur enn að kaupa eitt vínhólf í kjallaranum með 300 rauðvínsflöskum og fullan aðgang að svæðinu fyrir þrjú þúsund evrur í upphafi og 360 evra greiðslu árlega. Ekki veit ég hvort einhverjir gerðu viðskipti. Auðvitað var okkur boðið uppá veitingar sem samanstóðu af slátri, brauði. svínafitu og rauðvíni. Ég lét mér nægja að anda að mér af 37 ára gömlu rauðvíni og naga brauð.
Lét mig reyndar líka hafa það að smakka bévað slátrið. Það var sko ekkert líkt okkar góða slátri. Maður hélt fyrst að þetta væru grillaðar,litlar pylsur, nei aldeilis ekki þetta var einhverskonar blóðmör. Ég reyni ekki að lýsa því frekar, en vont var það.En hvað sem veitingunum leið þá var mjög gaman að skoða þetta allt saman þó ekki sé allt enn frágengið og mikið eigi eftir að byggja þarna. Húsið sem eigandinn kallar sumarhúsið sitt er eins og höll, mikil pragt og flottheit. Í vínkjallaranum voru málverk á öllum veggjum. Máluð beint á veggina. Ungverskur málari var tvö ár að mála myndirnar. Ég myndaði mörg málverkanna en læt nægja að setja hér inn mynd af vínsmakkaranum
Mér finnst þessi mynd ótrúlega flott. Ég ætla að ljúka þessu með mynd af Ninna og tunnunni sem hann keypti.
Er hann nokkuð sperrtur með tunnuna sína.Gott ef ekki er svipur með þeim, smakkaranum og Ninna.
Allar góðar vættir veri með ykkur alla daga og nætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2007 | 21:14
„Góð bók er gulli betri„
Undanfarnar vikur hef ég lesið nokkrar góðar bækur. en bókalestur hefur setið á hakanum hjá mér undanfarin ár. Því finnst mér alger munaður að geta legið í bókum án alls samviskubits. Fyrst er að telja bækur sem fjalla um kvenspæjarastofu númer eitt. Höfundur bókanna er Alexander McCall Smith. Atburðarrásin gerist í Botswana í Afríku. Það má segja að þessar bækur hafi heillað mig. Þær eru alveg einstæðar. Það ríkir svo falleg einlægni og manngæska í þessum skrifum. Svo eru þær meinfyndnar í þokkabót. Titlar bókanna eru líka skemmtilegir. S.s. Félagsskapur kátra kvenna Siðprýði fallegra stúlkna Fullur skápur af lífi Ég mæli eindregið með þessum bókum. Þær bæði bæta og kæta.Þær eru fullar af mannlegri samúð. Bókin sem ég var að ljúka við er allt annars eðlis. Hún ber titilinn Heimsins heimskasti pabbi og er eftir Mikael Torfason. Í þessari bók kveður við allt annan tón. Í henni er að finna mikinn skít og tilfinningareymd. Orðavalið er ótrúlega gróft og á fyrstu síðum ætlaði ég að henda henni frá mér, en gerði það ekki og lauk við að lesa hana. Ég sé ekki eftir því. Bókin er mjög áhrifamikil og fyndin á köflum.
Ninni hefur verið að lesa Saga Dalvíkur Ásdís og Óskar færðu okkur tösku að heiman, sem Þórgunnur hafði tínt sitt lítið af hverju í, eitthvað sem okkur fannst vanta að heiman. M.a. öll bindin af Saga Dalvíkur(Júlli verður ánægður) Þessar bækur eru náttúrlega bæði fræðandi og skemmtilegar. Ninni las upphátt fyrir mig í gærkvöld. Það var svona baðstofustemming í kotinu hjá okkur.Hann las um prakkarauppátæki Gunnlaugs í Háagerði. Sá hefur nú verið stríðinn og lagt heilmikið á sig til að koma prakkarastrikum sínum í framkvæmd. Það væri örugglega búið að greina hann og dæla í hann rítalíni væri hann meðal okkar í dag.
En svo að allt öðru. Ég hef verið eitthvað utan við mig undanfarið. Ég ætla að gefa ykkur smá dæmi. Ég var að fara í sundlaugina sem ég geri daglega og ekkert merkilegt við það. Ég vippa mér upp og fer í sundfötin (bikiní) þar sem ég kem stormandi niður segir Ninni, um leið og hann horfir hálf hneykslaður á mig : Ætlarðu að synda á brókinni ég lýt niður á mig og sé að ég hafði gleymt að fara í neðri hluta sundfatanna. En ég var þó í brók. Það eru fleiri dæmi en ég segi ekki frá fleiru að sinni. Ég var að spá Svava hvort þetta geti verið byrjunin á þú veist? Kannski les ég bara of mikið. Að lokum bið ég allar góðar vættir að vernda ykkur og lýsa vegi ykkar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
18.10.2007 | 17:29
„Spássitúr„
Frá því að við komum hingað höfum við gengið tugi kílómetra. Við höfum farið daglega í langa göngutúra og höfum á þessu arki okkar kannað nánasta umhverfi. Í gær ákváðum við að sleppa arkinu ,en fara þess í stað í spássitúr sem er eins og þið vitið allt annars eðlis.
Þar sem við spásséruðum eftir aðalgötunni kemur á móti okkur maður sem ég kannast strax við. Ég brosi mínu blíðasta og geri mig líklega til að heilsa. Maðurinn horfir á okkur hálfundrandi, þar sem ég góndi úr mér augun gleiðbrosandi til hans,en hann sýndi engin merki þess að hann kannaðist nokkuð við mig. Ég hugsa með mér: Honum skal nú ekki verða kápan úr því klæðinu, að heilsa mér ekki og ég segi: Ertu orðinn svona merkilegur með þig? Geturðu ekki heilsað manni?
Ég var með stór,dökk sólgleraugu,sem ég tók niður svo hann gæti nú örugglega kannast við kerlinguna.Hann stoppar við og mælir okkur út smástund, en segir svo á hreinni íslensku: Því miður,ég þekki ykkur ekki. Ég var nú ekki alveg dús við þetta og segi: Biddu aðeins við, er þetta ekki Kalli? Maðurinn svarar strax og segir: Næsti bær við Ég spyr á móti: Ertu bróðir hans Kalla? Já ég er tvíburabróðir hans og heiti Ingimundur
Á þessu augnabliki fannst mér þessi maður nákvæmlega eins og Kalli og ég var bara ekki tilbúin að trúa því að þetta væri einhver annar en hann. Til að bæta gráu ofan á svart geng ég þétt uppað manninum (svona eins og Steini Rönnu gerir stundum og þau gera í Ópal-auglýsingunum) og segi: Láttu nú ekki svona,víst ertu Kalli. Maðurinn sem augsýnilega var á hraðferð hundleiddist greinilega þetta raus í mér og fannst hann orðin nokkuð aðþrengdur af nálægð minni og andfýlu, (ég var ekki með ópal )segir hálffýlulegum rómi:Við erum vanir þessu bræðurnir,að fólk ruglist á okkur, en fyrirgefið mér ég er að flýta mér á pub til að horfa á leikinn(Rússland England)
Með það sama sáum við undir hælana á honum, alsælum að sleppa frá þessari prísund. Ég náði auðvitað ekki að mynda Kallabróður.
Nú verð ég að gera grein fyrir þessum góða Kalla sem ég þekki í raun ekkert mjög vel, kannast bara við hann úr pólitíkinni. Þið vitið hvernig þetta er maður heilsar öllum í útlandinu. Kalli var gjaldkeri á Dalvík fyrir margt löngu. En það var Kalli sem kom á þeirri reglu hjá Dalvíkurbæ á sínum tíma að innheimta dráttarvexti hjá þeim sem ekki stóðu í skilum. Að launum fékk Kalli frá gárungum á Dalvík ákveðið viðurnefni, sem þið verðið að geta ykkur til um hvernig það hljómaði.
Það var ekki hátt risið á mér eftir þennan fund, en við spásséruðum áfram eins og ekkert hefði ískorist og fljótlega urðu á vegi okkar tveir litlir kínverjar sem ólmir vildu fá mynd af sér. Það var auðsótt mál og smellti ég mynd af þeim félugum, sem voru glaðir og ekkert að stressa sig.Þeir minntu mig aðeins á Jakob Mána með þumalinn á lofti og glaðbeittir í allri framgöngu.Þeir björguðu spássitúrnum
Ég vona að öllum líði vel og góðar vættir lýsi vegi ykkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.10.2007 | 12:04
Fyrstu gestir í kotið!
Þá höfum við tekið á móti fyrstu gestunum í kotið. Það voru hjónin Gróa og Binni sem starfa hjá Gloría Casa. Þau hafa búið hér í sex ár. Eiga tvö börn í skóla fimmtán ára stelpu og þrettán ára strák. Fjölskyldan er mjög ánægð hér og hefur engan áhuga á að flytja til Íslands, að svo stöddu.Þeim finnst lífið hér afslappaðra og betra á flestum sviðum. Grunnskólinn góður og þau telja að meiri agi ríki hér í skólum en heima.
Þá komu hér í gærmorgun góðir gestir frá Íslandi. Hér voru á ferð hjónin Ásdís og Óskar á Steypustöðinni og Sigrún mamma Ásdísar, en hún og hennar maður eiga íbúð hér, sem þau eru búin að eiga í nokkur ár. Óskar og Ásdís eru með bílaleigubíl og fengum við að njóta góðs af;drossíunni; og félagsskap þeirra hjóna í gær. Við keyrðum til Torrivieja og fórum aðeins í búðir. Við Ninni keyptum okkur kaffibolla og fleira smádót. það var hálfleiðinlegt að láta gesti okkar sötra kaffið úr vatnsglösum.
Notabene. Áður en við lögðum í'ann setti ég mig í hárgreiðslumeistara stellingar og klippti Óskar. Meðan á gjörningnum stóð, sagði ég honum sögu af því þegar bræðurnir Árni G.og Kiddi G. voru að klippa hvorn annan forðum daga. Kiddi sagði mér að stundum þegar pabbi hefði verið búinn að klippa hann, hefði hann gjarnan danglað létt í hausinn á honum og sagt: Þú hefur aldrei verið betur klipptur, djö...ertu vel klipptur hjá mér núna laxmaður Kiddi vildi meina að þá hefði tekist fremur illa til og stallarnir væru frekar áberandi. Heldurðu að það hafi ekki verið geðslegur þokki sagði Kiddi svo og hló sínum smitandi hlátri. Kiddi sagði mér aftur á móti ekkert af því hvernig klippingin hjá honum á pabba hefði lukkast. Ég nýtti mér þessa sögu og danglaði létt í hausinn á Skara þegar ég hafði lokið verkinu og sagði um leið: Ég er viss um ,að þú hefur aldrei verið betur klipptur Það voru engir stallar sjáanlegir. Ég er reyndar farin að sjá fremur illa
Ef einhverjum sýnist á tilburðum mínum á myndinni að ég sé að heila manninn,þá er það ekki rétt. Ég er að klippa hann, en það má vel vera að hann hafi fengið heilun í leiðinni. Ég bið að góð,jákvæð orka og góðar vættir umvefji ykkur öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.10.2007 | 12:55
Hlustað á hljóð húsins!
Það er að ýmsu að hyggja þegar flutt er til nýrra heimkynna. Meðal þess sem þarf að læra er, ný og jafnvel áður óþekkt hljóð innan hús og utan. Eins og allir vita hafa flest hús sál. það hlýtur að vera eitthvað brogað við hús, sem er alveg sálarlaust. Hús hafa líka sín hljóð, þessi hljóð geta verið mjög mismunandi eftir húsum.Við höfum verið að venjast hljóðum okkar nýja hús sem eru ósköp pen og ekkert sem pirrar eða plagar.
Þó brá svo við, þegar ég sat með prjóna mína út á svölum í gærmorgun, að Ninni kemur í gættina og segir: -Ég er engan veginn ánægður með þetta hljóð sem ég heyri inni í svefnherberginu Ég legg frá mér prjónanna og hökti inn. Jú það leyndi sér ekki hér var eitthvað undarlegt á seiði. Hljóðið kom úr veggnum við náttborðið Ninna megin.
Við leggjum við eyru og spáum og spegúlerum, horfum hvort á annað og undrumst þetta ótrúlega murr sem heyrist mjög greinilega og eins og áður sagði virtist vera inní veggnum. Við vorum satt að segja ráðþrota um stund, hvað áttum við til bragðs að taka? Ninni var búinn að taka leslampann úr sambandi, ef þetta tengdist nú eitthvað rafmagninu. Engin breyting varð á svo hann tók til að bölva eins og honum einum er lagið og segir:þú verður að fara til Dave og vita hvort hann áttar sig eitthvað á hver andsk... er hér er á seiði.
Dave er varaforseti húsfélagsins hérna en maður að nafni Bob er forseti húsfélagsins báðir eru þeir breskir. Ekki veit ég af hverju þeir hafa þessar nafngiftir, nema bara það sé til gamans, eða betra að fá menn í þessi hlutverk með þessum fínu titlum. Til þessara manna má maður leita með ýmislegt smálegt. Ég arka af stað til Dave, stutt var að fara þar sem hann býr í 86.
Ég kom að læstum dyrum, svo ég tók á það ráð að fara um svæðið og leita að honum eða Bob, sem ég reyndar þekki ekki enn í sjón(hef aldrei séð manninn) Ég hitti fyrir mann sem ég tek tali og spyr hann hvort hann viti nokkuð hvar Dave eða Bob sé að finna. Hann tjáir mér að þeir báðir séu fjarverandi, en Dave muni koma fljótlega.
Ég sagði þessum nafnlausa manni raunir okkar hjóna og spurði hann hvort hann vildi ekki koma og heyra þetta einkennilega hljóð sem kæmi útúr veggnum í svefnherberginu okkar. Maðurinn sá aumur á mér og kom með mér.
Þegar við komun upp í herbergið stóð Ninni þar jafn ráðþrota og áður.Ónefndi maðurinn lagði strax eyra við vegginn og var nokkuð undrandi á þessu en sagði fátt, færði síðan náttborðið til,(sem við vorum líka búin að prófa) dró það vel frá veggnum og eiginlega skók það til. Spurði síðan, hvort eitthvað væri í skúffunum, sem eru þrjár. Ég kvað svo ekki vera. Ekkert væri í þessum skúffum að mér vitandi.
Sá ónefndi dregur þá neðstu skúffuna út og hljóðið hækkar og í ljós kemur lítið og nett snyrtiveski sem Ninni á. Ofan í veskinu morraði, murraði og titraði (hann var nefnilega í gangi)sakleysislegur rafhlöðu eyrna- og nefháraplokkari sem er mikið þarfaþing. Við hjónin stóðum þarna eins og algerir fábjánar og gátum litlum vörnum við komið. Ninni sagði þó um leið og hann leit á mig: -Ég slökkti á helvítis melnum þegar ég var búinn að nota hann í morgun-.
Sá ónefndi glotti við tönn og snaraðist niður stigann, ég rétt náði að kalla til hans áður enn hann hvarf á braut: að vera svo vænn að segja ekki neinum frá þessu. Hann lofaði því, en mig grunar að hann hafi haldið að þarna væri allt annað tól á ferð en nefháraplokkari. Þegar ég tók titrandi plokkarann uppúr veskinu var sá ónefndi grunsamlega snöggur að snúast á hæl og kveðja. Við mættum þessum ónefnda bjargvætti hér á göngu í dag og nikkuðum okkur kumpánlega til hans og brustum síðan öll í hlátur
Þar sem ég á ekki nynd af ónefnda bjargvættinum, set ég inn mynd af snyrtiveskinu og sökudólgnum.Það fer engum sögum um það hvað ég þrusaði við Ninna eftirá,hvað það ætti að fyrirstilla að geyma þetta í náttborðinu þar sem nóg geymslurými væri í húsinu. Ég vona að þið þekkið hljóð húsa ykkar.
Bloggar | Breytt 11.10.2007 kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2007 | 09:07
Nafn á kotið
Hér voru þrumur og eldingar í tvo daga og úrhellisrigning. Það er með sanni hægt að segja að það hafi verið hellt úr fötu. Það var mikil Guðs gjöf fyrir gróðurinn að fá þessa rigningu. Hann sogaði til sín vatnið eins og ég svolgraði írska kaffið í den. Nú er komin á renniblíða aftur og sólin vermir hvern reit. Í gærdag gengum við meðfram ströndinni.
Baðstrendurnar hér eru marga litlar og sætar víkur .Á þessum árstíma er ekki mjög þétt setinn bekkurinn. Enginn vandi að finna sér pláss og hreiðra vel um sig. Ekki er maður búin að liggja lengi þegar komin er kínversk kvensa, sem bíður uppá nudd. Heilnudd eða hálfnudd. Við prófuðum nuddið hjá einni þegar við vorum hérna í júní. Hikstalaust hægt að mæla með því.
Þegar við komum heim af ströndinni birtust hér í kotið gamlir kunningjar. Það varð mikil gleði af minni hálfu að sjá aftur þessa gömlu góðu vini.Þetta voru þau Miss Elly og stórfjölskyldan eins og hún lagði sig. Fyrstan er að nefna hin eina sanna JR, Bobby,Pamela,Sue Ellen og bara allt hyskið frá Southf. Ein breska stöðin sem við höfum er að endursýna Dallas og ég segi það alveg satt að ég hafði þvílíkt gaman að. Veit reyndar ekki hvort ég legg mig sérstaklega fram við að fylgjast með þáttunum í framtíðinni,allavega mun ég ekki kaupa kók í flöskum og stykki fyrir hverja útsendingu.
Ég vil biðja ykkur börnin góð að koma nú með hugmyndir að nafni á kotið. Það virðist vera siður hér meðal íslendinga að skíra húsin sín og er það vel. gamall og góður íslenskur siður. Við höfum ekki fundið nafn ennþá, þó er ein hugmynd komin. Hún er að láta kotið heita Ásholt
þá erum við með Ásbyrgi og Reykholt í huga. En endilega komið með hugmyndir við höfum ekki ákveðið hvort einhver verðlaun verði í boði fyrir það nafn sem fyrir valinu verður.
Jakob litli Máni átti afmæli í gær hann varð fimm ára elsku drengurinn. Til hamingju elsku Jakob og hafðu það sem allra, allra best í Ameríkunni. Megið þið öll vera góðum vættum falin hvar sem þið eruð niðurkomin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)